miðvikudagur, janúar 26, 2005

Créme Bruleé

2 ½ dl Rjómi
2 ½ dl Mjólk
100 g Sykur
4 stk Eggjarauður
1 stk Vanillustöng

Sykur til að strá yfir


Undirbúningur
Hitið ofninn í 150°C.

Matreiðsla
Hellið rjómanum og mjólkinni í pott og hitið.
Sjóðið vanillustöngina í mjólkinni og rjómanum ásamt helmingnum af sykrinum í u.þ.b. 10 mínútur.
Kælið því næst blönduna aðeins.
Þeytið rauðurnar með hinum helmingnum af sykrinum.
Takið vanillustöngina upp úr og þeytið rjómablöndunni smám saman við eggin.
Setjið að lokum blönduna í form og bakið við 150°C þar til skán myndast á yfirborðinu.
Stráið síðan sykri yfir og brúnið þar til sykurhúðin verður stökk.

Hollráð
Varist að hita búðinginn þannig að hann sjóði upp úr sykurhúðinni.
Gott er að nota lítil form eða bolla (7-8 cm) til þess að gera einn skammt per. mann.

föstudagur, janúar 21, 2005

Innbökuð kjúklingabringa, fyllt með sveppakremi

Fyrir 2.

1 plata Smjördeig
4 stk. Kjúklingabringur
250 g. Sveppir
Smjörostur með graslauk (eða kryddjurtum)
Ferskur graslaukur eða kryddjurtir
Salt og pipar
4 sneiðar Skinka (eða þurrskinka)


Rúllið smjördeigsplötuna út og skerið hana í 4 strimla.
Skerið vasa í hverja bringu.
Hreinsið sveppina og skerið þá í sneiðar.
“Svitsið” þá í smá smjöri og kryddið með salti og pipar.
Hrærið sveppina saman með ostinum ásamt graslauknum (eða kryddjurtunum) og setjið í vasana á bringunum.
Pakkið bringunum fyrst inn í skinkuna, svo að vasarnir haldist lokaðir.
Pakkið þeim þvínæst í smjördeigið.
Bakið pakkana í 25 mínútur við 220°C og berið fram með salati eða léttsteiktu grænmeti.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Spaghetti með skelfiski

Fyrir 6

2 krukkur Skelfiskur (Vongole alla marinara)
400 g. Spaghetti
3 stk. Hvítlauksgeirar, saxaðir
4 msk. Ólífuolía
100 ml. Þurrt hvítvín
3 stk. Litlir þurrkaðir chillipipar
1 hnefi steinselja, hökkuð

Sjóðið spaghetti-ið og meðan það sýður, svissið hvítlaukinn í olíu á stórri pönnu.
Bætið skelfiskinum útí, hvítvíni og chilipipar og hitið vel saman.
Sigtið pastað og hellið skelfiskblöndunni yfir og stráið steinselju yfir.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Einfaldur pastaréttur með túnfisk

F. 2

4 handfyllir pasta
1 dós túnfiskur
1 dós maísbaunir
1 laukur
2 rif hvítlaukur
4 dl Tómatpastasósa
1/2 dl hvítvín (eða hvítvínsedik)

Sjóðið pastað samkv. leiðbeiningum, síið vatnið frá og haldið heitu.
Hakkið laukinn fínt, kremjið hvítlaukinn og svissið á pönnu í ólívuolíu.
Bætið útí túnfisk og maisbaunum og hitið í smá stund,
Bætið pastasósu og hvítvíni út í og hitið, ekki sjóða.

Berið fram með einhverju góðu brauði.

Ákvað....

....að búa til uppskriftarblogg. Bara svona til þess að gera eitthvað!!!

Hvað finnst ykkur?